Námsmat
Síða í vinnslu
Námsmat í Landakotsskóla
Í aðalnámskrá grunnskóla segir um námsmat:
Mat á hæfni og framförum nemenda er reglubundinn þáttur í skólastarfi, órjúfanlegur frá námi og kennslu. Megintilgangur námsmats er að leiðbeina nemendum um námið og hvernig þeir geti náð markmiðum þess. Með námsmati er fylgst með því hvernig nemendum tekst að ná almennum hæfniviðmiðum aðalnámskrár, stuðlað að námshvatningu, nemendur örvaðir til framfara og metið hverjir þurfa á sérstakri aðstoð að halda.
Víki námskrá nemanda frá skilgreindum hæfni- og matsviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla skal merkja vitnisburðinn með stjörnu (*) á vitnisburðarskírteini. Þannig fá nemendur í 5.- 10. bekk A*, B*, C* eða D* í samræmi við hvernig þeir ná einstaklingsbundnum matsviðmiðum sínum.
Innleiðing leiðsagnarnáms hófst í Landakotsskóla haustið 2021
Leiðsagnarnám snýst um að veita nemandanum leiðsögn sem hjálpar honum til að ná þeim markmiðum sem hann stefnir að. Markmiðin þurfa að vera skýr og vel skilgreind svo nemandinn, kennarinn og aðrir sem að náminu koma hafi sama skilning á því hvað sé til marks um að markmiðunum sé náð. Meginforsendur þess að kennari geti byggt nám og kennslu á leiðsagnarnámi eru að honum sé ljóst hvaða hæfni nemendur hans eigi að tileinka sér, þ.e.a.s. hvað þeir eigi að læra. Ef hann viti það ekki sé hann ekki fær um að meta framfarir þeirra, hvað þá heldur að veita þeim endurgjöf sem hjálpar þeim til að ná árangri. Nanna K. Christansen
Nemendur fá endurgjöf jafnt og þétt í gegnum skólaárið með skýrum leiðbeiningum um hvernig þeir geta styrkt sig og náð betri árangri í einstökum námsþáttum innan hverrar greinar.
Hæfniviðmið eru sá grundvöllur sem kennsluhættir og námsmat byggjast á Kostir hæfniviðmiða:
• Skýra fyrir nemendum til hvers er ætlast af þeim og leiðbeina við námið, hvetja og auka skilning á tilgangi námsins.
• Hjálpa kennurum að gera sér skýra grein fyrir því hvað það er sem þeir vilja að nemendur nái tökum á varðandi þekkingu og leikni.
• Hjálpa kennurum að velja hentugar kennsluaðferðir og skilgreina hvernig meta skuli árangur og hvort tiltekinni hæfni sé náð.
Í skólanámsskrá er hæfniviðmiðum greina skipt upp milli skólaára og er námsmat að vori gert með hliðsjón af þeim hæfniviðmiðum sem liggja til grundvallar hverri grein. Lykilhæfni er fléttuð inn í skólanámsskrá. Sameiginleg hæfniviðmið listgreina má sjá í námsskrá hverrar greinar. Í list- og verkgreinum er skólanámsskrá hliðstæð aðalnámskrá og er þar horft til hæfni hvers skólastigs. Í kennsluáætlun hverrar greinar kemur fram með hvaða hæfniviðmið
Í megindráttum er endurgjöf til nemenda með tvenns konar hætti; annars vegar í formi óformlegs námsmats í gegnum samtal, hvatningu og leiðsögn í kennslustundum sem byggt er á skýrum markmiðum sem eru nemendum ljós. Hins vegar fer námsmat fram með formlegri hætti með ólíkum verkefnum sem nemandi vinnur ýmist í skólanum eða sem heimaverkefni sem jafnframt er byggt á skýrum markmiðum sem eru nemendum ljós. Nemendur sýna þá fram á hæfni sína með ritgerðum, kynningum, munnlegum, verklegum eða skriflegum prófum, leikþáttum, stuttmyndum, framsöguverkefnum myndverkum eða dansverkum þar sem styrkleikar nemenda geta notið sín. Í þessum verkefnum fá nemendur formlegri endurgjöf sem getur verið í formi einkunnarorða, bókstafa, prósentutölu, stigagjafar eða umsagnar. Nemendur vinna einnig sjálfsmat og jafningamat með sambærilegum hætti. Námsmatið er grundvallað á þeim hæfniviðmiðum sem unnið er með hverju sinni.
Dæmi um skýra leiðsögn eru matskvarðar (sjá aftast) og/eða dæmi um góð vinnubrögð sem nemendur geta nýtt sér til framfara. Með þessum hætti geta nemendur sýnt þá hæfni sem þeir hafa náð á efninu og fengið leiðsögn um hvernig þeir geta tekið næsta skref og styrkt sig.
Samantekt úr þessu formlega og óformlega námsmati kemur fram í einkunnarorðum eða bókstöfum sem nemendur fá að vori á yngsta og miðstigi. Á unglingastigi og miðstigi fá nemendur einnig formlegt námsmat í öllum námsgreinum í janúar að lokinni haustönn.
Ýmis stöðluð próf eru lögð fyrir nemendur (sjá starfsáætlun Landakotsskóla á heimasíðu skólans). Foreldrum eru kynntar niðurstöður í foreldraviðtölum eða fyrr eftir því sem aðstæður krefja.
Forráðmenn eru upplýstir um stöðu nemanda tvisvar á ári eða oftar eftir því sem þurfa þykir.
Í foreldraviðtölum í október og janúar stilla umsjónarkennari, nemandi og forráðamenn saman strengi og setja markmið um að hverju verði stefnt á haustönn/vorönn svo framför verði og námsmarkmiðum verði náð. Fyrir foreldraviðtöl fá umsjónarkennarar leiðsögn í formi umsagnar um námsstöðu nemenda frá öllum kennurum sem kenna viðkomandi nemanda.
Einkunnarorðum og bókstöfum á einkunnablaði fylgir umsögn sem endurspeglar stöðu nemandans miðað við hæfniviðmið skólanámsskrár. Í umsögn kemur fram hvar styrkleikar nemandans liggja og hvaða þætti þarf að vinna frekar með. Umsagnir veita nemendum, forráðamönnum og þeim kennurum sem taka við nemandanum upplýsingar um námsgengi nemenda, hæfni þeirra, vinnubrögð og framfarir, sem m.a. er haft að leiðarljósi við frekari skipulagningu náms.
Nemendur í fimm ára bekk fá umsögn að vori.
Nemendur í 1. – 4. bekk fá umsögn og hæfnieinkunn að vori.
Nemendur í 5. – 10. bekk fá einkunnablað í janúar og að vori.
Á útskriftarskírteini 10. bekkinga kemur námsstaða nemenda fram í bókstöfum miðað við hæfniviðmið aðalnámskrár. Hún er birt á 10 námssviðum; íslensku, ensku, dönsku, listgreinum, verkgreinum, skólaíþróttum, náttúrugreinum, samfélagsfræðigreinum, stærðfræði og upplýsinga- og tæknimennt. Einnig kemur fram einkunn í frönsku sem er hluti af skólanámsskrá Landakotsskóla. Á útskriftarskírteini birtast einnig einkunnir í þeim valgreinum sem nemandi hefur lagt stund á í unglingadeild. Einkunn í listgreinum er fundin með því að horfa til frammistöðu nemenda í myndlist, tónlist, leiklist og dansi sem nemendur fá í 8. bekk. Einkunn í verkgreinum er fundin með því að horfa til frammistöðu nemenda í hönnun og smíði og textílmennt í 8. bekk.
Einkunnarorð á yngsta stigi:
Framúrskarandi þýðir að nemandi hafi náð námsviðmiðum með framúrskarandi hætti. Einungis er gert ráð fyrir að fáir nemendur úr hverjum námshópi nái þessu viðmiði.
Hæfni náð þýðir að nemandi hafi náð flestum markmiðum.
Þarfnast frekari þjálfunar þýðir að nemandi þurfi að þjálfa sig betur í ákveðnum hæfniviðmiðum.
Einkunnarorð á mið- og unglingastigi:
Á miðstigi og unglingastigi er bókstafir notaðir til að lýsa hvernig nemandi hefur náð hæfniviðmiðum greinar:
A framúrskarandi hæfni þar sem öllum hæfniviðmiðum greinar sem unnið er með yfir skólaárið/önnina hefur verið náð með mjög góðum árangri. Nemandi sýnir góðan skilning á námsefninu, er sjálfstæður og skipulagður í vinnubrögðum.
B+ að nemandi hafi náð öllum hæfniviðmiðum greinar sem unnið er með yfir skólaárið/önnina með góðum árangri.
B að nemandi hafi náð öllum hæfniviðmiða sem unnið er með yfir skólaárið/önnina.
C+ að nemandi hafi náð flestum hæfniviðmiða sem unnið er með yfir skólaárið/önnina.
C að nemandi hafi ekki náð öllum hæfniviðmiða greinarinnar sem unnið er með yfir skólaárið/önnina.
D að nemandi hafi náð fáum hæfniviðmiðum greinarinnar sem unnið er með yfir skólaárið/önnina.
Náms- og kennsluáætlanir eru á heimasíðu Landakotsskóla.
Kennari leggur fram kennsluáætlun í upphafi skólaárs þar sem fram kemur hvernig kennslu verður háttað. Kennsluáætlanir eru alltaf birtar með fyrirvara um breytingar. Í kennsluáætlun kemur fram
- tímabil sem kennsluáætlun nær til
- hvernig vinna áfangans tengjast hæfniviðmiðum og í list- og verkgreinum með hvaða hæfniviðmið unnið er.
- hvaða lykilhæfni er unnið með
- helstu efnisþættir
- hvaða námsefni er lagt til grundvallar
- helstu kennsluaðferðir
- hvernig námsmati og verkefnaskilum er háttað