Heimsókn frá Kína

22.febrúar

Í síðustu viku heimsóttu okkur 30 kínverskir nemendur og kennarar frá Chinese Foundation Secondary School í Hong Kong. Skólinn leggur áherslu á tónlist og vísindi og er með 900 nemendur í 7. - 12. bekk. Micah, Nanna Hlíf, Kjartan og Atli skipulögðu smiðjur í útvist og ratleik, mældu sýrustig og spunnu lög saman þar sem kínversku nemendurnir unnu með 9. bekk og D- hóp. Kínversku nemendurnir héldu stutta tónleika inni á sal þar sem meðal annars var spilað á kínverska hörpu. Nemendur í 9. og 8. bekk hlýddu á auk þess sem 3. bekkur söng undurfallega fyrir gestina. Aldeilis skemmtileg og lærdómsrík skólaheimsókn. Nemendur Landakotsskóla voru til fyrirmyndar og dugleg að spjalla við kínversku félaga sína. Hér má sjá myndir frá heimsókninni.

Öskudagur

14. febrúar 2018

Upp er runninn öskudagur og þá gerum við okkur glaðan dag í Landakotsskóla!

Nemendur og kennarar héldu í KR heimilið í morgun í grímubúningum og skemmtu sér saman fram að hádegismat. Myndir frá ferðinni í KR heimilið má sjá hér. Við vonum svo að allir njóti vetrarfrísins og hlökkum til að hefja kennslu á ný á mánudagsmorgun.

Vesturbæjarbiskupinn og sigur stúlknasveitar Landakotsskóla

12. febrúar 2018

 l

Vesturbæjarbiskupinn, skákmót Vesturbæjar, var haldið í Hagaskóla þriðjudaginn 6. febrúar og hlaut Landakotsskóli sérstök þátttökuverðlaun þar en skólinn átti flesta nemendur á mótinu. Kira í 2. bekk vann einnig til bronsverðlauna í stúlknaflokki yngstu nemenda. Á meðfylgjandi mynd má sjá alla keppendur Landakotsskóla fagna farandbikarnum forláta sem Landakotsskóli fékk að launum. Til hamingju! 

Þá eru fleiri hamingjuóskir við hæfi því stúlknasveit Landakotsskóla, 6.-10.bekkur, vann 2. sæti á Íslandsmóti grunnskóla þarsíðustu helgi. Innilega til hamingju með frábæran árangur! Sveitina skipuðu Elsa í C hóp, Áróra í D hóp, Decca í 8.bekk og Iðunn í 5.bekk.