Bekkjarkvöld hjá 5 ára nemendum

Vel heppnað bekkjarkvöld var haldið í 5 ára bekk þar sem foreldrar og börn skemmtu sér saman við að spila og syngja. Ekki spilltu heldur fyrir dýrindis veisluföng sem foreldrarnir áttu heiðurinn af.

Samsöngur

Nemendur í 5 ára, 1. og 2. bekk sungu saman fyrir nokkru í matsalnum, þau sungu fallega og sýndu mikinn áhuga. Þetta var svo gaman að ætlunin er að hittast oftar í samsöng.

Erasmus+ styrkur

Í haust hlaut Landakotsskóli styrk úr Ersmus+ áætlun Evrópusambandsins til að senda átta kennara í námsferðir til Evrópu. Tilgangur ferðanna er annars vegar að skoða hvernig megi ýta undir skapandi nám í öllum greinum og hins vegar dýpka og þróa listnám. Einnig verður horft sérstaklega til nemenda með sérþarfir og þeirra sem tala annað móðurmál en íslensku.

Mikilvæg sérstaða Landakotsskóla er hversu fjölbreytt listnám skólans er en í skólanum eru fastráðnir kennarar í myndmennt, tónmennt, smíði, leiklist og dansi. Einnig eru kenndar fleiri stundir í listnámi en viðmiðunarstundaskrá segir til um. Sköpun í víðu samhengi er einn af grunnþáttum nýrrar aðalnámsskrár og er gert ráð fyrir því að skapandi nálgun sé undirliggjandi þáttur í öllu skólastarfi og öllum námsgreinum.

Landakotsskóli hlaut styrk að upphæð 11.250 evrur munu kennarar fara í námsferðirnar á næstu fjórum misserum.