Vorfagnaður fjáröflunarfélags Landakotsskóla

27. apríl

Mikil og góð mæting var á vorfagnað fjáröflunarfélags Landakotsskóla sem haldið var með pompi og prakt í gærkveldi. Gestir gæddu sér á léttum veitingum af hlaðborði, hlýddu á Jakob Frímann syngja og spila og auk þess var dreginn út fjöldi happdrættisvinninga sem Halla Helgadóttir kynnti af mikilli snilld. Fleiri myndir frá kvöldinu má sjá hér.

 

Boð í tónmenntatíma

26.apríl

Í gær, miðvikudag, voru nokkrir nemendur úr 2.bekk svo elskulegir að bjóða 4.bekk að koma í heimsókn í tónmenntatíma og hlusta á þau spila lag sem þau voru að læra. Helmingur 4.bekkjar spilaði svo fyrir þau. Gaman var að fylgjast með hvað krakkarnir eru klár og dugleg að spila og eins hvað þau standa sig vel í að fylgjast með og hlusta af áhuga. Hér má sjá fleiri myndir úr heimsókninni.

Opnunarhátíð Barnamenningarhátíðar

17. apríl 2018

 

Í morgun var öllum 4.bekkingum í Reykjavík boðið í Hörpuna á opnunarhátíð Barnamenningarhátíðar. Nemendur úr 4.bekk í Landakotsskóla brugðu sér því af bæ ásamt 3 kennurum.

Þegar í Hörpu var komið kynnti Sigyn Blöndal, kynnir hátíðarinnar, Dag B. Eggertsson borgarstjóra á svið þar sem hann setti hátíðina. Að því loknu tóku við einstaklega vönduð og skemmtileg atriði þar sem blásturssveit skipuð nemendum úr tónlistarskólum Reykjavíkur lék fyrir áhorfendur, drengir úr Listdansskóla Íslands sýndu verk um stríð og frið, nemendur úr Dansskóla Birnu Björns sýndu Street dans, Sirkus Íslands var með sýningu, Jói P og Króli sungu fyrir krakkana og lag hátíðarinnar, Ostapopp, var flutt. Var þetta frábær stund í alla staði og skemmtu nemendur og kennarar sér afar vel. Hér má sjá fleiri myndir frá ferðinni.