35 tungumál á menningarmóti í Landakotsskóla

6

Smellið á myndina til að skoða fleiri myndir. 

Í tilefni af alþjóðadegi menningalegrar fjölbreytni UNESCO var fjölbreytileikanum fagnað í Landakotsskóla á dögunum með verkefninu “Menningarmót - fljúgandi teppi”. 

Menningarmótið er þverfagleg kennsluaðferð hugsuð til þess að varpa ljósi á styrkleika og fjölbreytta menningu og tungumál nemendanna með skapandi hætti. Hugmyndafræði Menningarmótsins er í góðu samræmi við áherslur UNESCO um viðurkenningu á fjölbreyttri menningu og heimsmarkmið 4.7 en þar segir m.a:  

“...menntun sem er ætlað að efla sjálfbæra þróun og sjálfbæran lífsstíl, með því að hlúa að friðsamlegri menningu, með mannréttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálfbærrar þróunar.”

Kristín R. Vilhjálmsdóttir, kennari og með MA í hagnýtri menningarmiðlun er hugmyndasmiður verkefnisins. Hún hefur mótað Menningarmótin í meira en tvo áratugi og leiðbeint við að innleiða verkefnið í fjölmörgum leik-, grunn- og framhaldsskólum á Íslandi og í Danmörku.  

Í Landakotsskóla hófst menningarmótið með  fræðslu fyrir kennarahópinn. Síðan var Kristín með kynningar fyrir alla hópana  og  unnið var með menningarhugtakið gegnum ýmsar miðlunarleiðir um allan skólann. Menningarmót var svo haldið sl. föstudag 20. maí þar sem afrakstur vikunnar var til sýnis. Foreldrum og forráðamönnum var boðið í heimsókn til að sjá og heyra um verkefnið og um leið fá innsýn í þá fjölbreyttu menningu og hin ýmsu áhugamál barnanna. Það var sprellifandi stemning og nemendur ljómuðu í kapp við sólina sjálfa.

Landakotsskóli er UNESCO skóli og hefur  skuldbundið sig til að vinna með heimsmarkmiðin og halda upp á að minnsta kosti þrjá alþjóðlega UNESCO daga. Allur skólinn tók þátt í mótinu að þessu sinni  eða um 350 nemendur skólans. Á menningarmótinu galopnuðu nemendur sína persónulega heima og allar þær “fjársjóðskistur”  sem börnin hafa að geyma og uppgötvuðu þannig með nýjum aðferðum öll hin fjöldamörgu tungumál sem eru töluð á meðal nemendanna, en um 35 tungumál eru töluð í skólanum.

Stór og fallegur tungamálaregnbogi var skapaður í lok vikunnar með ölllum gildum nemendanna. Orðin vinátta, virðing, fjölbreytileiki, friður, sköpun, traust, umburðarlyndi, samvinna og hafa þau verið þýdd yfir á öll tungumál barnanna með aðstoð foreldra. Slíkt listaverk fylgir menningarmótsferlinu og er hugmyndin - að auki að það prýði veggi skólans á fallegan hátt - að  nemendur skólans geti speglað sig í bæði gildum og tungumálum verksins.

Frá skólastjóranum Ingibjörgu Jóhannsd.: “Kennarar voru ánægðir með hversu einlægir og góðir kynnendur og hlustendur nemendur voru. Það er mjög verðmætt fyrir börnin að fá tækifæri til að segja frá sjálfum sér og sínum áhugamálum. Margs konar tengsl og þræðir myndast milli barnanna. Og það er líka mikilvægt fyrir okkur starfsfólkið að kynnast börnunum með þessum hætti.”

Efni um menningarmót: 

www.menningarmot.is 

www.kulturkompasset.dk

Verðlaunaafhending frönskukeppni grunnskólanema

20220319 132249

Smellið á myndina til að sjá fleiri myndir. 

Síðast liðinn laugardag var afhending verðlauna vegna frönskukeppni grunnskólanema í Alliance française.

20. mars er alþjóðlegur dagur franskra tungu en það hefur núna breyst í alþjóðlegan mánuð frönskumælandi menningarheima.
Allskonar viðburðir eru í gangi og einn af þeim er frönskukeppni grunn- og framhaldsskólanema.

Keppnin er skipulögð af félagi frönskukennara á Íslandi og Landakotsskóli tekur nú árlega þátt.

Þemað í ár var "un chef de cuisine à la télévision".
Nemendur útbjuggu myndband um uppskrift en francais bien sûr.
Dómnefndina skipuðu Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir (ritsjóri Gestgjafans), Renaud Durville (franska sendiráðinu) og Adelins D'Hont (framkvæmdastjóri Alliance francaise).
Verðlaun hlaut Iðunn Helgadóttir (9. bekk) fyrir myndbandið sitt Pâtisserie avec Iðunn
Verðlaun hlutu einnig Chisom Osuala, Katrín Jónsdóttir, Kristín Björg Skúladóttir og Kristján Árni Ingólfsson (10. bekk) og 
Vésteinn Viktorsson og Þorvaldur Wilhelm Sigurjónsson (10 bekk)
Alls tók 21 grunnskólanemi þátt.

Við erum mjög stolt af þeim 🙂

         Solveig Simha, frönskukennari

Landakotsskóli á Íslandsmóti barnaskóla- og grunnskólasveita

processed a4469a4a f8f7 4590 85ed 1de162c85f6b R06ehkPa forsida

Smellið á myndirnar til að skoða fleiri myndir.

Landakotsskóli sendi þrjár sveitir til leiks á Íslandsmót barnaskóla- og grunnskólasveita helgina 12.-13. mars síðastliðinn. Skólinn sendi eina sveit til leiks í flokki 4.-7. bekkjar, og tvær sveitir í flokki 8.-10. bekkjar. Yngri nemendum bauðst að tefla einnig í eldri flokkunum. A-sveit Landakotsskóla í 8.-10. bekk hafði titil að verja en hafði ekki erindi sem erfiði þetta skiptið og lenti í 3. sæti eftir frækna baráttu. Snemma varð ljóst að baráttan var á milli Landakotsskóla, Lindaskóla og Vatnsendaskóla. Þessir skólar voru í algjörum sérflokki og einungis munaði hálfum vinningi á sigurliði Vatnsendaskóla (23.5 vinningar) og næstu tveimur (23 vinningar). Öll úrslit liðanna má nálgast á chess-results. Nemendur Landakotsskóla hafa sótt æfingar hjá Taflfélagi Reykjavíkur og Skákskóla Íslands og tekið virkan þátt í skákmótahaldi innanlands og jafnvel erlendis líka! 

Nemendur í bronzliði Landakotsskóla-A voru: 

  1. Adam Omarsson 

  2. Iðunn Helgadóttir

  3. Jósef Omarsson 

  4. Jón Loui Thoroddsen 

       vm. Muhammad Sanan Ijaz Sulehria

B-sveit Landakotsskóla hafði reyndar líka titil að verja (efsta B liðið) en varð að lúta í dúk gegn B-sveit Vatnsendaskóla sem einnig stóð sig gríðarlega vel. B-liðsmenn sýndu góða takta, ekki bara í sókn heldur líka í vörn, en afar áhugaverð pattstaða kom upp í skák Stefáns Borgars. Í skák er alltaf von þótt að kóngurinn verði ekki endilega mát. Þá verður hann bara patt í staðinn! 

Nemendur í Landakotsskóla-B: 

  1. Stefán Borgar Brynjólfsson 

  2. Jakob Rafn Löve 

  3. Muhammad Rayan Ijaz Sulehria

  4. Helgi Niels Gunnlaugsson 

       vm. Muhammad Sanan Ijaz Sulehria

19 lið tóku þátt í 3.-7. bekkjar mótinu og þar lenti Landakotsskóli í 6. sæti. Flottur árangur, og með aðeins heppilegri pörun hefði sveitin hæglega getað endað á palli, en í lokaumferðinni paraðist skólinn gegn sigursveit Vatnsendaskóla. Öll úrslit liðanna má nálgast á chess-results. Eins og sést tefldu þessir fjórir snillingar í báðum mótum, laugardag og sunnudag!: 

  1. Jósef Omarsson 

  2. Jon Loui Thoroddsen

  3. Muhammad Rayan Ijaz Sulehria

  4. Helgi Niels Gunnlaugsson

Það er skammt stórra högga á milli hjá skákliði Landakotsskóla en snemma í apríl verður Reykjavíkurmótið haldið og þar er að sjálfsögðu stefnt að sigri í allavega einum flokki, kannski tveimur! Það kemur bara í ljós, en það má samt ekki gleyma því að aðalatriðið er að hafa gaman að skákinni, þá fylgja góð úrslit!

                                               Gauti Páll Jónsson, skákkennari í Landakotsskóla