Ljósmyndasýning

Katrín Elvarsdóttir og Ragnar Axelsson

Spegill – gluggi.

Ljósmyndir eftir Katrínu Elvarsdóttur og Ragnar Axelsson prýða Landakotsskóla í vetur.

ljosmyndasyning

Katrín og Ragnar eru í hópi fremstu ljósmyndara landsins en þau eru afar ólíkir listamenn. Vel þekkt kenning skiptir skapandi ljósmyndurum í tvo flokka, annars vegar er það speglafólk, ljósmyndarar sem nota miðilinn sem tæki til tjá persónulegar hugmyndir, skoðanir og sýn, en hins vegar gluggafólk, sem notar ljósmyndavélina sem tæki til að skrá frásagnir um heiminn og reynslu annarra. Með hliðsjón af þessari kenningu má segja að Katrín falli í flokk speglaljósmyndara en Ragnar sé gluggaljósmyndari. Með nokkurri einföldun má tengja speglaljósmyndara við rómantík og á stundum dulhyggju, en gluggaljósmyndara við raunsæi og heimildaskráningu.

Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur hefur skrifað um þessa skiptingu og segir að samkvæmt þessum hugmyndum sýni fyrrnefndu ljósmyndararnir „það sem þeir sjá og mynda í gegnum eigið sjálf, meðan þeir síðarnefndu leitast við að halda eigin sjálfi utan við það sem þeir vilja koma á framfæri í ljósmyndum sínum.“

 Með sama hætti má segja að áhorfandinn upplifi óræð verk speglaljósmyndara  í gegnum eigin tilfinningar, afstöðu og hugmyndir og geti þannig mætt í þeim sjálfum sér og eigin viðhorfum á nýjan hátt. Að vissu leyti liggur styrkur verkanna í því að hugmyndir áhorfandans verða í raun hluti af þeim. Einnig má segja um áhorfandann, með álíka hætti, að við að skoða verk gluggaljósmyndara  fræðist hann um fólk, mannlíf og staði.  Áhorfandinn verður einhvers vísari um nýjar og ókunnar aðstæður, sem hafa jafnvel ekki verið hluti af heimsmynd hans fyrr en hann kynnist verkunum. Gátt myndast inn í ókunnan heim, sem bætir við nýjum upplýsingum og hugmyndum sem áhorfandinn getur mátað sig við.

Á undanförnum árum hefur Katrín, sem fæddist árið 1964, verið virk á sýningavettvangi, hér heima og erlendis. Þá hefur hún sent frá sér tvær bækur Margsaga / Equivocal og Vanished Summer. Á göngum og í sal skólans  má sjá myndir úr fyrrnefndri seríu. Myndir af gluggum og rúðum eru áberandi; af þessum mörkum milli heima, þess að vera úti og inni – mögulega ímyndunarafls og veruleika. Um þessi verk segir á heimasíðu Katrínar: „Við erum stödd innandyra og horfum út. Við erum stödd utandyra og horfum inn. ...– allt eru þetta vísbendingar í brotakenndri frásögn sem vekja upp spurningar frekar en að gefa svör. Í myndaröðinni Margsaga verðum við vitni að óljósum atburðum sem við höfum óvart ratað inní. Eins og óboðnir gestir í sviðsmynd sem neitar að uppljóstra hvort hún sé raunveruleg eða skálduð. Brotin raðast saman og þröngva upp á okkur margræðri atburðarrás. Hvort sem okkur líkar betur eða verr.“

Í myndunum geta áhorfendur virt fyrir sér persónulegt rými einhverra, með því að horfa á hlutina sem þar eru, þeir sjá aðstæður þar sem eitthvað hefur gerst eða gæti mögulega hafa gerst. Óræðar og ljóðrænar myndir teknar í mannlausum húsum, þar sem manngert umhverfi skapar umgjörð utan um ímyndunarafl áhorfandans.

Ljósmyndir Ragnars Axelssonar, sem fæddist árið 1958, hafa á undanförnum árum ratað víðar en verk nokkurs annars íslensk ljósmyndara og hafa vakið verðskuldaða athygli, enda fjalla þær um forvitnilegan veruleika og áleitnar spurningar í samtímanum,  auk þess að vera stílhreinar og fágæta vel teknar. Myndir Ragnars hafa birst í mörgum helstu tímaritum heimsins og þá hefur heimildarkvikmynd um störf hans verið sýnd víða um lönd.

Verkin fjalla oftar en ekki um sterk tengsl mannsins við náttúruna. Myndir hans  af norðurslóðum hafa verið settar í samhengi við loftslagbreytingar af mannavöldum og sambandsleysis nútímamannsins við náttúrlegt umhverfi sitt.

Ragnar hefur starfað sem blaðaljósmyndari á Morgunblaðinu frá unglingsárum en síðan árið 1986 hefur hann líka unnið að tímafrekum og krefjandi persónulegum verkefnum, í anda heimildarljósmyndunar, sem sum hver spanna næstum þrjátíu ár. Til að fylgjast með aðstæðum fólks og breytingum á lífi þeirra fer hann aftur og aftur á sömu staðina og hefur til dæmis farið í yfir 20 ljósmyndaleiðangra til Grænlands. Á síðustu árum hafa verk Ragnars verið gefin út á bókum og settar upp á veggi sýningarsala hér heima og erlendis, við  hrifningu gagnrýnenda sem almennra áhorfenda. Helstu bækur Ragnars eru Andlit norðursins, sem fjallar um hverfandi mannlíf á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi; Veiðimenn norðursins, sem fjallar um líf og umhverfi veiðimanna á Grænlandi og Norður-Kanada, sem er að taka miklum breytingum, meðal annars vegna hnattrænnar hlýnunar; og Fjallaland. Þar birtist skráning og upplifun Ragnars á göngum á Landmannaafrétti á tuttugu ára tímabili.

Nánar má fræðast um verk ljósmyndaranna á heimasíðum þeirra:

www.katrinelvarsdottir.com

www.rax.is