Rýmingaráætlun

landakotsskoli logo


Ef brunaviðvörunarkerfi gefur frá sér boð skal fylgja eftirfarandi áætlun:

 1. Húsvörður eða staðgengill hans, fer á stjórnstöð, slekkur á brunaboði og aðgætir hvaðan brunaboðið kemur. Ef um eld er að ræða kviknar aftur á brunaboða.
 2. Skrifstofustjóri hringir úr farsíma í Securitas og segir að verið sé að kanna hvaðan brunaboðið kemur.
 3. Skrifstofustjóri er í stöðugu sambandi við Securitas og gefur skýringar á brunaboðinu eða tilkynnir að um eld sé að ræða.
 4. Um leið og brunaboði fer af stað hefst viðbúnaðarstig og kennarar undirbúa rýmingu
 5. Skólinn er rýmdur ef brunaboð fer aftur af stað og hefst þá aðgerðastig.
 6. Ef ekki er ástæða til að rýma skólann er skilaboðum komið á framfæri eins fljótt og auðið er.
 7. Á viðbúnaðarstigi láta kennarar nemendur fara í einfalda röð, taka með sér nafnalista og rauð og græn spjöld.
 8. Þegar kennarar hafa tæmt stofu loka þeir og setja grænt spjald í hurðarfalsið.
 9. Skólaliðar og starfsfólk sérkennslu sjá um þau rými sem ekki er skilgreind kennslurými: Gangur, salerni, anddyri, matsalur, unglingaherbergi, vinnustofa kennara, námsráðgjöf/hjúkrun. Þeir skipta á milli sín svæðum og aðgæta að börn séu ekki á svæðinu og loka öllum dyrum.
 10. Starfsfólk rýmir skólann og fer á söfnunarsvæði fyrir framan kirkju. 5 ára bekkur er næst Túngötu og svo koll af kolli, hver bekkur í átt að Hávallagötu. Alþjóðadeild er með systurbekkjum sínum.
 11. Farið er um þann útgang sem er fjær upptökum eldsins.
 12. Á söfnunarsvæði fara kennarar yfir nafnalista til að aðgæta að allir nemendur bekkjarins séu komnir út. Ef ekki, skal kennari standa fyrir framan bekkinn og halda uppi rauðu spjaldi.
 13. Skrifstofustjóri tekur mynd af fjarvistarskráningu á upplýsingaspjaldi og kemur upplýsingum til námsráðgjafa eða annarra sem taka saman mætingar.
 14. Námsráðgjafi eða aðrir sem eru lausir (eru valdir) fara síðan á milli bekkja og fá að vita hvaða nemendur vantar og hvar þeir sáust síðast. Þessir fulltrúar eru með alla nafnalista skólans og merkja við þá nemendur sem vantar. Þeir koma skilaboðum til skólastjóra sem kemur upplýsingum áfram til varðstjóra slökkviliðs um hve margir nemendur gætu hugsanlega enn verið inni og um hugsanlega staðsetningu þeirra.
 15. Kennarar og annað starfsfólk leitar skjóls með börnum í Landakotskirkju þar sem frekari niðurstöðu er að vænta.

Sá aðili sem fer síðastur út úr stofu, skal loka öllum dyrum á eftir sér til að draga úr reykflæði um bygginguna og hindra úrbreiðslu elds eins og hægt er. Ekki á að læsa stofum. Merkja kennslustofu með grænu spjaldi þegar búið er að tæma stofu.

Skólaliðar og starfsfólk sérkennslu gera slíkt hið sama við þau svæði sem þeim er ætlað að fara yfir.

Flóttaleiðir bekkja í eldsvoða

Aðalútgönguleiðir:

 • Inngangur Túngötumegin.
 • Inngangur við útisvæði yngri barna við vinnustofu kennara.
 • Inngangur við útisvæði yngri barna við sérkennsluver.
 • Inngangur við myndmenntastofu.
 • Inngangur við 5 ára bekk.

Þessir útgangar verða hafðir opnir ef þarf að rýma skólann.

Aðrar útgönguleiðir (notaðar ef aðalútgönguleiðir teppast vegna elds en einnig til að flýta fyrir rýmingu):

 • Hjá námsráðgjöf/hjúkrunarfræðingi.
 • Um inngang Hávallagötumegin við matsal.
 • Í gegnum alþjóðadeild, yngri bekkja og út á bílastæði.
 • Gluggar (miðast bara við jarðhæðir, aðrir bíða í skólastofum).

Miðað er við að hver bekkjardeild hafi tvær flóttaleiðir. Farið er um þá sem er fjær eldsupptökum. Einnig þá sem er fljótförnust og nær söfnunarsvæði. Starfsfólk velur þá flóttaleið eftir tilkynningu um staðsetningu eldsins.

 • 5 ára

Velur aðalinngang út á leiðsvæði stóru barna (þar sem þau fara venjulega út) eða út um glugga í vesturátt í innra rými.

 • 1. bekkur

Velur aðalinngang út á leiksvæði yngri barna eða inn í stofu annars bekkjar og þar út um neyðarglugga og út á þak.

 • 2. bekkur

Velur aðalinngang út á leiksvæði yngri barna eða út um neyðarglugga og út á þak.

 • 3. bekkur

Velur að fara niður stiga og út um turninngang eða fara niður brunastiga og út Túngötumegin

 • 4. bekkur

Velur að fara út um aðalinngang við leiksvæði litlu barna eða út um neyðarglugga.

 • 5. bekkur

Velur að fara niður stiga og út við aðalinngang við 5 ára bekkjarstofu eða í gegnum 6. bekkjarstofu og út um neyðarglugga og út á þak.

 • 6. bekkur

Velur að fara niður stiga og út um aðalinngang við 5 ára bekkjarstofu eða út um neyðarglugga og út á þak.

 • 7. bekkur

Velur að fara niður stiga og út um aðalinngang við myndmenntastofu eða í gegnum stofu alþjóðadeildar og út um neyðarglugga og út á þak.

 • 8. bekkur

Velur að fara út við myndmenntastofu eða út í gegnum neyðarglugga inni í stofu.

 • 9./10. Bekkur

Fer niður stiga og út um aðalinnganga Túngötumegi eða út um neyðarglugga og út á þak eða út um brunaútganga í textílstofu.

 • A hópur – alþjóðadeild

Velur að fara í gegnum stofu B hóps og út á bílaplan eða út á gang og út um aðalinngang Túngötumegin.

 • B hópur – alþjóðadeild

Velur að fara út um aðalinngang Túngötumegin eða út á bílastæðaplan.

 • C hópur – alþjóðadeild

Velur að fara niður stiga og út um aðalinngang við myndmenntastofu eða út á þak í gegnum neyðarglugga í stofu.

 • D hópur – alþjóðadeild

Velur að fara niður stiga og út um turninngang eða fara niður brunastiga og út Túngötumegin.

 • Námsver

Velur að fara út í leikport litlu barna eða út um annan aðalinngang Túngötumegin.

 • Danssalur

Fer út um neyðarglugga í sal eða fram og út um aðalinngang við myndmenntastofu.

 • Myndmennta/textílstofa

Fer út um aðalinngang og út á leiksvæði eldri barna eða út um neyðarglugga.

 • Smíðastofa

Velur aðalinnganga út á leiksvæði litlu barna eða út um neyðarglugga í stofu.

 • Tónmenntastofa

Fer út um aðalinngang út á leiksvæði eldri barna eða út um neyðarglugga.

 • Matsalur

Fer út í litla garð eða út Hávallagötumegin.

Meginreglur í eldsvoða:

 1. Fylgið fyrirmælum.
 2. Verið róleg og hafið hljótt.
 3. Verið tilbúin að yfirgefa húsið eins og þið standið.
 4. Gangið rösklega. Gætið þess að allir meðlimir hópsins séu með.
 5. Skiljið alla hluti eftir í skólanum.
 6. Lokið dyrum (ekki læsa) eftir að aðgætt hefur verið hvort rýmið sé autt.

Nánar um starfssvið starfsfólks með nemendahópum:

 1. Þegar boð fer í gang skal hefja rýmingu skólans – viðbúnaðarstig.
 2. Undirbúið rýmingu kennslustofunnar, einföld röð og mögulega leiðast.
 3. Leiðið hópinn út úr stofu, aðgætið hvort kennslustofan sé auð og kannið fjölda þeirra nemenda sem eru hjá ykkur. Lokið skólastofu og merkið með grænu spjaldi í fals hurðar. Munið eftir nafnalista og rauðum spjöldum.
 4. Slökkt er á bjöllu til að kanna hvort um eld er að ræða. Kveikt er á bjöllunni aftur ef um eld er að ræða og þá skal rýma skólann og aðgerðastig hefst.
 5. Nemendur fara ekki í hlífðarföt og fara ekki með neitt með sér ef um raunverulegan eld eða hættu er að ræða.
 6. Gangið rösklega út. Ef þið sjáið til skólaliða eða starfsfólks sérkennslu og vitið að nemenda er saknað látið þá vita strax. Þeir geta þá kannað hvort nemendur séu í þeim rýmum sem þeir fara yfir.
 7. Farið með nemendur á viðkomandi bekkjarsöfnunarsvæði. Farið yfir nafnalista og haldið upp rauðu spjaldi ef einhvern vantar.
 8. Fulltrúar ganga á milli og taka niður nöfn þeirra nemenda sem er saknað og koma skilaboðum áfram til skólastjóra/ staðgengils.
 9. Farið með nemendur í skjól við Landakotskirkju.

Ef reykur er til staðar eða flóttaleið lokuð:

Notum aðra flóttaleið. Ef allar leiðir eru lokaðar haldið þá kyrru fyrir í skólastofu og hafið dyr lokaðar. Ykkur verður bjargað út um glugga þegar slökkvilið mætir. Aldrei nota lyftur í eldsvoða.

Aðrar aðstæður:

Ef brunaboði fer í gang í frímínútum safnast nemendur saman á leiksvæði yngri barna og á leiksvæði eldri barna. Yngri börnum er síðan fylgt af þeim sem fyrstir koma á vettvang og þeim sem eru við útigæslu yfir á söfnunarsvæði við kirkjuna. Nemendur raði sér eftir bekkjardeildum. Nafnalistar ritara og fjarvistarskrá eru notuð ef ekki þykir ráðlegt að fara inn í skólann og sækja nafnalista bekkja. Skólaliðar sækja þá nemendur sem mega vera inni í frímínútum eða þeir sem eru með umsjón með þessum nemendum.

Starfssvið skólaliða eða annars starfsfólks sem ekki er með umsjón með nemendahóp þegar brunaboð verður:

 1. Festa útidyrahurðir þannig að þær lokist ekki þar sem það er hægt.
 2. Aðstoða kennara við að rýma skólann og huga sérstaklega að millirýmum, göngum, matsal og salernum.
 3. Ef brunaboð verður í frímínútum þá senda skólaliðar þá nemendur sem mega vera inni út á söfnunarsvæðið.
 4. Farið á söfnunarsvæðið.
 5. Aðstoðið kennara með nemendur.

Miðað er við að Fanney fari yfir salerni við smíðastofu og matsal og gangasvæði við 1. bekk, 2.bekk og 4. bekk.

Miðað er við að Edda fari yfir salerni við tónlistarstofu, gangasvæði við 5. og 6. bekk og fataklefa.

Miðað er við að Helga fari yfir salerni í kjallara, danssal og unglingaherbergi og ganga í kjallara.

Miðað er við að Zita fari yfir salerni við hlið lyftu og ganga við 8. bekk, svæði við uppgang í 9/10 bekkjarstofu, svæði fyrir framan myndmenntastofu og uppgang 7. bekkjar.

Miðað er við að Anna Guðrún fari yfir skrifstofur, rými fyrir framan 3. bekk og kennarastofu.

Þeir sem stjórna björgunarstarfinu:

Húsvörður:
Finnur kannar brunaboð og eldsupptök. Fer á viðkomandi svæði og kannar orsök hljóðmerkis.

Opnar útidyr og aðrar mögulegar rýmingarleiðir eftir þörfum.

Ef ekki er um eld að ræða slekkur hann á hljóðmerki.

Skólastjóri:
Sér um að miðla upplýsingum frá húsverði og skrifstofusjtóra til björgunarliðs. Ákveður í samráði við slökkvilið hvort koma eigi nemendum á söfnunarsvæði eða í annað skjól.

Námsráðgjafi:
Námsráðgjafi og/eða aðrir (valdir eftir því hver er laus) safnar saman upplýsingum frá umsjónarkennurum bekkja á söfnunarsvæði um hvaða nemendur vantar og mögulega staðsetningu þeirra. Ber saman við fjarvistarskrá frá skrifstofustjóra og miðlar upplýsingum til skólastjóra.

Skrifstofustjóri:
Hefur samband með farsíma við stjórnstöð Securitas og tilkynnir að verið sé að kanna hvaðan brunaboð komi. Tilkynnir Securitas og slökkviliði ef um eld er að ræða og gefur skýringar á brunaboði. Tekur mynd af nafnalista með fjarvistum nemenda og starfsfólks og kemur til námsráðgjafa. Tekur einnig með heildarnafnalista nemenda og nafnalista starfsfólks.

Námsráðgjafi:
Tekur með heildarnafnalista nemenda og starfsfólks sem hann hefur tiltækan.

Merkir við á lista hvaða nemendur eru fjarverandi og hefur samband við alla kennara og tekur saman hvaða nemendur vantar og eru mögulega enn inni í skólanum.

Lætur skólastjóra hafa lista yfir þá nemendur sem mögulega eru í hættu.

Á meðan á slökkvistarfi stendur:
Skólastjóri og bekkjarkennarar hringja í bekkjarfulltrúa sem eru á nafnalistum og upplýsa um stöðu. Senda póst/sms eins fljótt og auðið er til allra foreldra og upplýsa hvort þurfi að sækja nemendur og hvernig staðan sé. Róa nemendur og koma í veg fyrir múgæsing. Merkja við í nafnalista þegar nemendur eru sóttir.