Eineltisstefna starfsmanna

Eineltis- og viðbragðsáætlun starfsmanna til útprentunar

In english about bullying.

Stefna og viðbragðsáætlun um einelti, áreitni eða ofbeldi starfsmanna í Landakotsskóla

Um hlutverk Vinnueftirlistsins
Í reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum er áhersla lögð á að innan hvers vinnustaðar sé stuðlað að forvörnum og aðgerðum gegn slíkri háttsemi. Vinnueftirlitið hefur leiðbeinandi hlutverk og eftirlitsskyldu í þessum málum, en er ekki úrskurðaraðili um hvort einelti, áreitni eða ofbeldi hafi átt sér stað. Stofnuninni ber að stuðla að og efla forvarnir t.d. með leiðbeiningum og fræðslu og sjá til þess að atvinnurekandi grípi til viðeigandi úrbóta í vinnuumhverfinu þegar við á.

Vinnueftirlitið tekur við ábendingum og kvörtunum um einelti, áreitni eða ofbeldi og um vinnuumhverfi. Hægt er að senda inn ábendingar nafnlaust eða með nafni til Vinnueftirlitsins.

Þegar Vinnueftirlitinu berst kvörtun er hún metin og farið er í eftirlitsheimsókn á vinnustaðinn. Í eftirlitsheimsókninni er sérstaklega farið yfir þætti sem varða sálfélagslegt vinnuumhverfi, en efni kvörtunarinnar er ekki tekið upp á einstaklingsgrunni.

STEFNA LANDAKOTSSKÓLA
Það er stefna Landakotsskóla að allir starfsmenn sýni samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi, virðingu og umburðarlyndi í samskiptum. Einelti og kynferðisleg áreitni verður undir engum kringumstæðum umborin á vinnustaðnum eða á samkomum innan skólans. Meðvirkni starfsmanna í einelti er fordæmd.

Skilgreining Landakotsskóla á hvað einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi á vinnustöðum er styðst við reglugerð nr. 1009/2015 en þar segir í 3. gr.:  

Einelti: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.

í 8. gr. sömu reglugerðar segir:  

Starfsmönnum er óheimilt að leggja annan starfsmann eða aðra starfsmenn sem og hlutaðeigandi atvinnurekanda í einelti á vinnustað. Starfsmönnum er jafnframt óheimilt að áreita annan starfsmann eða aðra starfsmenn sem og hlutaðeigandi atvinnurekanda kynferðislega sem og á grundvelli kyns eða beita þá ofbeldi á vinnustað.

Einelti, áreitni og annað ofbeldi á vinnustað getur verið af hálfu starfsfólks, stjórnenda eða utanaðkomandi aðila sem tengjast vinnustaðnum. Gerendur og þolendur geta verið einn eða fleiri.

Mikilvægt er að starfsmaður, sem orðið hefur fyrir einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustað eða hefur vitneskju um slíkt, upplýsi atvinnurekanda eða vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins, svo hægt sé að bregðast við eins fljótt og kostur er.

Nýjum starfsmönnum er kynnt stefna og viðbragðsáætlun fyrirtækisins í eineltismálum strax við upphaf starfs. Stefnan og viðbragsáætlunin eru rifjaðar upp reglulega á starfsmannafundum.

Komi upp einelti skulu þolendur leita til næsta yfirmanns. Ef yfirmaðurinn er gerandinn eða hundsar vandamálið er hægt að leita til tveggja annarra aðila, öryggistrúnaðarmanns eða öryggisvarðar auk stjórnar Landakotsskóla. Þessir aðilar skulu sýna þolanda fullan trúnað. Einnig er hægt að kvarta undir nafni til Vinnueftirlitsins með því að fylla út form með kvörtun um einelti eða samskiptavanda á vinnustað. Starfsmaður getur samt sem áður óskað sérstaklega eftir nafnleynd.

Landakotsskóli mun grípa til aðgerða gagnvart starfsmönnum sem leggja aðra í einelti, t.d. með leiðbeiningarsamtali, formlegu áminningarferli, tilflutningi í starfi eða uppsögn- sjá nánari útskýringar KÍ. Alvarleg atvik verða hugsanlega kærð að höfðu samráði við þolanda. Gerandi eineltis verður látinn axla ábyrgð.

VIÐBRÖGÐ
Starfsmaður sem verður fyrir einelti eða kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi skal snúa sér hið fyrsta til næsta yfirmanns og tilkynna um atvikið. Ef næsti yfirmaður er gerandi málsins eða sinnir því ekki er hægt að snúa sér til tveggja annarra trúnaðaraðila auk stjórnar Landakotsskóla. Þegar yfirmaður eða trúnaðaraðilar fyrirtækisins fá vitneskju um einelti munu þeir bregðast við samkvæmt eftirfarandi viðbragðsáætlun. Strax er metin þörf þolanda fyrir bráðan stuðning og hann veittur. Lögð verður áhersla á að leysa málið hið fyrsta og koma í veg fyrir frekara einelti.

Auk yfirmanna og stjórnar Landakotsskóla eru eftirfarandi trúnaðaraðilar tilbúnir að ræða við starfsmenn um meint einelti á vinnustaðnum.

  1. Anna Katrín Þorvaldsdóttir, öryggistrúnaðarmaður.
  2. Finnur Óskarsson, öryggisvörður.
  3. Kristín Inga Hrafnsdóttir, náms- og starfsráðgjafi.

Sá aðili, sem samband er haft við, ákvarðar síðan í samráði við þolandann hvert framhaldið verður. Hægt er að velja á milli óformlegrar eða formlegrar málsmeðferðar.

ÓFORMLEG MÁLSMEÐFERÐ
Slík málsmeðferð felur í sér að leitað er upplýsinga hjá þolanda og honum veittur stuðningur með trúnaðarsamtali eða ráðgjöf. Aðrir innan vinnustaðarins eru ekki upplýstir um málið.

FORMLEG MÁLSMEÐFERÐ
Gerð er hlutlaus athugun á málsatvikum. Rætt er við þolanda, geranda og aðra sem veitt geta upplýsingar um málið. Mikilvægt er að leita upplýsinga um tímasetningar og fá fram gögn ef einhver eru, s.s. tölvupósta, sms-skilaboð eða annað.

Fundin verður lausn sem m.a. getur falist í breytingum á vinnustaðnum, vinnubrögðum eða vinnuskipulagi. Gerandi mun fá leiðsögn og aðvörun, hann gæti líka verið færður til í starfi.

Málinu verður fylgt eftir og rætt við aðila þess að ákveðnum tíma liðnum. Fylgst verður með samskiptum aðila málsins.

Láti gerandi ekki segjast og viðheldur eineltinu leiðir það til uppsagnar hans úr starfi.

Vinnueftirlitið hefur gefið út bæklinga um vinnustaðaeinelti sem hægt er að kynna sér hér:

Enginn á að sætta sig við einelti, áreitni, ofbeldi (2016).

Sættum okkur ekki við einelti, áreitni, ofbeldi (2016 ).

Heimildir
Reglugerð nr. 1009/2015 um einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Stefna Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi (2017).

Sættum okkur ekki við einelti, áreitni, ofbeldi (2016 ). Fræðslu- og leiðbeiningarit nr. 35. Vinnueftirlitið.

Enginn á að sætta sig við einelti, áreitni, ofbeldi (2016). Fræðslu- og leiðbeiningarit nr. 36. Vinnueftirlitið.

Dæmi um stefnu og viðbragðsáætlun í eineltismálum. Vinnueftirlitið.