Viðtöl um hugtakið barn, ábyrgð, vopnuð átök og og bata

Viðtöl um hugtakið barn, ábyrgð, vopnuð átök og og bata

Ilmur og Freyja

Við tókum viðtöl við krakka úr Landakotsskóla á aldrinum 7-15 ára og spurðum þau ýmissa spurninga um afstöðu þeirra til Barnasáttmálans og svör þeirra voru sum mjög áhugaverð.

Hugtakið barn 1. Barn er einstaklingur undir 18 ára aldri, nema lög heimalands þess segi annað

Áslaug Glúmsdóttir, 7 ára

Hvað finnst þér um það að þegar maður verður 18 ára, sé maður orðinn fullorðinn?

Svar: Mér finnst fínt að maður verði fullorðinn þegar maður verður 18 ára.

Jafnræði-bann við mismunun 2. Öll börn skulu njóta réttinda barnasáttmálans án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annara aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra.

Veist þú um eitthvað tilfelli þar sem börnum hefur verið mismunað, vegna t.d. litarháttar, þjóðernis, fötlunar eða annarra aðstæðna.

Svar: Já, stelpa í bekknum mínum sagði við aðra stelpu að hún væri skítug vegna þess að hún er brún.

Finnst þér réttlátt að fólki sé mismunað?

Svar: Nei, því það er ljótt.

Vésteinn Viktorsson, 9 ára

Hvað finnst þér um það að þegar maður verður 18 ára, sé maður orðinn fullorðinn?

Svar: Mér finnst það fínn aldur, vegna þess að þá er maður búinn að þroskast nóg.

Veist þú um eitthvað tilfelli þar sem börnum hefur verið mismunað, vegna t.d. litarhafts, þjóðernis, fötlunar eða annarra aðstæðna.

Svar: Nei.

Finnst þér réttlátt að fólki sé mismunað?

Svar: Mér finnst það ekki réttlátt, allir eiga að vera jafnir.


Zoe Anaïs, 10 ára

Hvað finnst þér um það að þegar maður verður 18 ára, sé maður orðinn fullorðinn?

Svar: Mér finnst það fínn aldur.

Veist þú um eitthvað tilfelli þar sem börnum hefur verið mismunað, vegna t.d. litarháttar, þjóðernis, fötlunar eða annarra aðstæðna.

Svar: Já, vinkona mín í Frakklandi, sem er frá Spáni, var einu sinn á hlaupahjóli og þá kom strákur og spurði hvað hún væri að gera og hún sagðist bara vera á hlaupahjóli og þá tók strákurinn hlauphjólið hennar og hann ýtti henni og hún datt og handleggsbrotnaði og hann fót að hlæja og sagði að hún væri ekki flott og hann fór á hlaupahjólinu hennar og hún þurfti að fara á spítala.

Finnst þér réttlátt að fólki sé mismunað?

Svar: Nei, af því að við erum öll eins að innan.

Það sem barninu er fyrir bestu 3. Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem
velferð þeirra krefst. Aðildarríki eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjöld og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.

Hinrik Helgason 7 ára

Finnst þér að það ætti að spyrja börn áður en ákvarðanir eru teknar sem varða þau?

Svar: Nei, þau eiga að gera þetta alveg sjálf.

Af hverju?

Svar: Bara af því að þau eru fullorðin.

Finnst þér þú vera öruggur í t.d. skólanum, tómstundum, heima eða annarsstaðar?

Svar: Já.

Veist þú um einhvern sem finnst hann ekki öruggur?


Svar: Nei.

Er eitthvað sem þú myndir vilja breyta öryggis vegna?

Svar: Nei.

Ábyrgð aðildarríkja 4. Aðildarríki eiga að tryggja börnum þau réttindi sem Barnasáttmálinn kveður á um því sem þau framast geta, m.a. með lögum og reglum. Ríkin skulu hjálpast að þannig að öllum börnum verði tryggð þessi réttindi.

Finnst þér þú hafa öll réttindin í Barnasáttmálanum?

Svar: Já.

Þekkir þú muninn á forréttindum og réttindum?

Svar: Nei.

Ábyrgð foreldra 5. Aðildarríki eiga að virða ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra til að veita börnum sínum leiðsögn og stuðning í samræmi við þroska þeirra.

Finnst þér foreldrar þínir fara eftir reglum Barnasáttmálans?

Svar: Já.

Veist um aðra foreldra sem fara ekki eftir reglum Barnasáttmálans?

Svar: Nei.

Ef að þú mættir breyta reglum á heimilinu þínu, hverju myndir þú breyta?

Svar: Að ég mætti fá Playstation.

Eru forréttindi eða réttindi að fá Playstation?

Svar: Forréttindi.

Finnst þér foreldrar þínir leiðbeina þér, styðja þig og ala þig upp í samræmi við þroska þinn?

Svar: Já.


Sæunn Líf Káradóttir 9 ára

Finnst þér að það ætti að spyrja börn áður en ákvarðanir eru teknar sem varða þau?

Svar: Nei.
Finnst þér þú vera öruggur í t.d. skólanum, tómstundum, heima eða annarsstaðar?

Svar: Já.

Veist þú um einhvern sem finnst hann ekki öruggur?

Svar: Já, vinkonu minni finnst hún ekki vera örugg vegna þess að það tekur enginn tillit til hennar og það hlustar enginn á hana, jafnvel þótt hún sé meidd.

Er eitthvað sem þú myndir vilja breyta öryggis vegna?

Svar: Nei.

Finnst þér þú hafa öll réttindin í Barnasáttmálanum?

Svar: Já.

Þekkir þú muninn á forréttindum og réttindum?

Svar: Já, ég veit ekki hvernig ég á að útskýra það. Forréttindi eru eitthvað sem er fínt að hafa en réttindi eru eitthvað sem maður þarf.

Finnst þér foreldrar þínir fara eftir reglum Barnasáttmálans?

Svar: Já.

Veist um aðra foreldra sem fara ekki eftir reglum Barnasáttmálans?

Svar: Já, mamma vinkonu minnar segir að það sé í lagi að mismuna fólki vegna litarháttar.

Hvað finnst þér um það?

Svar: Það er ekki gott.

Ef að þú mættir breyta reglum á heimilinu þínu, hverju myndir þú breyta?

Svar: Mér finnst allt ágætt, en ég myndi vilja mega fá nýja hillu.

Eru forréttindi eða réttindi að fá nýja hillu?

Svar: Forréttindi.

Finnst þér foreldrar þínir leiðbeina þér, styðja þig og ala þig upp í samræmi við þroska þinn?

Svar: Já.

Iðunn Helgadóttir 8 ára

Finnst þér að það ætti að spyrja börn áður en ákvarðanir eru teknar sem varða þau?

Svar: Mér finnst að það ætti að spyrja börnin af því að maður má ráða yfir sér stundum.

Finnst þér þú vera örugg í t.d. skólanum, tómstundum, heima eða annarsstaðar?

Svar: Já.

Veist þú um einhvern sem finnst hann ekki öruggur?

Svar: Nei.

Er eitthvað sem þú myndir vilja breyta öryggis vegna?

Svar: Nei.

Finnst þér þú hafa öll réttindin í Barnasáttmálanum?

Svar: Mér er stundum strítt af tveimur stelpum í bekknum mínum og þær skilja mig líka stundum útundan.

Gera kennararnir eitthvað í því?

Svar: Já smá, þeir skamma þær og segja að þetta megi ekki.

Þekkir þú muninn á forréttindum og réttindum?

Svar: Það eru t.d. forréttindi að fá ís á sunnudögum en það eru réttindi að fá mat.

Finnst þér foreldrar þínir fara eftir reglum Barnasáttmálans?

Svar: Foreldrar mínir fara eftir honum.

Veist um aðra foreldra sem fara ekki eftir reglum Barnasáttmálans?

Svar: Nei.

Ef að þú mættir breyta reglum á heimilinu þínu, hverju myndir þú breyta?

Svar: Ég myndi vilja fá meiri svefn, en litla systir mín vekur mig alltaf snemma á morgnana.
Hvort finnst þér það vera forréttindi eða réttindi?

Svar: Mér finnst það vera forréttindi.

Finnst þér foreldrar þínir leiðbeina þér, styðja þig og ala þig upp í samræmi við þroska þinn?

Svar: Já.

Vopnuð átök 38. Tryggja skal börnum á átakasvæðum vernd og umönnun. Börn yngri en 15 ára eiga ekki að taka þátt í vopnaviðskiptum eða sinna herþjónustu.

12 ára stúlka

Hvernig finnst þér að börn undir 15 ára aldri séu í vopnaviðskiptum eða sinna herþjónustsu?

Svar: Mér finnst það svolítið ungt vegna þess að þegar er fimmtán ára þá er maður ennþá krakki.

Hvernig myndi þér líða ef þú værir send í vopnaviðskipti eða að sinna herþjónustu núna?

Svar: Vá, mér myndi bara líða hræðilega, því ég myndi aldrei skjóta manneskju.

En ef þú þyrftir ekki að skjóta neinn og værir bara í vopnaviðskiptum?

Svar: Ég var að horfa á myndband áðan og það var alveg hræðilegt, þetta var s.s. eins og krakkar væru í tölvuleik. Þetta var eins og árás. þetta væri bara hræðileg lífsreynsla.

Finnst þér börn á átakasvæðum vel vernduð?

Svar: Nei, flest eru nú bara notuð í þennan hernað. Það er verið að gefa þeim kókaín þrisvar sinnum á dag til þess að þau verði skrítin í hausnum og skjóti strax.

Bati og aðlögun 39. Tryggt skal að börn sem sætt hafa vanrækslu, misnotkun, grimmilegri eða vanvirðandi meðferð eða eru fórnarlömb átaka fái viðeigandi meðferð til að ná bata og aðlagast samfélaginu.

Hvernig finnst þér að börn sem hafa sætt vanrækslu, misnotkun, verið fórnarlömb eða annað, fái meðferð til að ná bata?

Svar: Ég held að það sé bara mjög gott svo að þeim líði betur en það er náttúrulega enginn eins þannig að kannski virkar hún ekki á öll börn. Þeim á allavega eftir að líða betur en ég veit ekki hversu mikið.

Hvernig heldur þú að samfélagið væri ef að börn fengu ekki þessa meðferð?

Svar: Byssur!! Ég meina það er bara, bang! Þau verða náttúrulega bara geðveik og þau hugsa ekki rétt. Ég held að á átakasvæðum myndi börnum vera kennt að vanræksla og  misnotkun og þannig lagað væri í lagi, ef þau fengu ekki þessa meðferð.