Innkaup

Nemendur þurfa ekki að kaupa skóladót því skólinn skaffar þeim nauðsynleg gögn.

3. mars

Kennaranemar

Hér eru 5 kennaranemar þessa viku og næstu, verða aðallega í 4b og 5b en líta vafalaust inn hjá fleiri bekkjum. Þetta er fólk sem kann prýðilega til verka og lífgar upp á annars ágæta tilveru hjá okkur!

Samskiptamiðlar á netinu

Í vikunni sem leið voru áberandi fréttir um konu sem annars vegar hefur barist gegn netníði og hins vegar gerst sek um slíkt hið sama. Þegar fullorðnum verður svona hrösult í netheimum, við hverju er þá að búast af börnum og unglingum? Ég fæ nokkuð reglulega inn á borð til mín vandamál sem hafa orðið til vegna ógætilegrar notkunar barna og unglinga á miðlum eins og fésbók, twitter og instagram. Að jafnaði eru þessi mál ekki auðveld úrlausnar. Nokkrir nemendur fyrr og síðar hafa bakað sér reiði með skrifum sínum, aðrir valdið sárindum í annars garði og eitt mál var með þeim hætti að það var með því versta sem ég hef fengist við í starfi; tengdist afar óheppilegri myndbirtingu. Nútíminn líður svo hratt að fullorðnir gefa sér ekki tíma til að hugsa áður en þeir birta hitt og þetta á netmiðlum, jafnvel undir dulnefni. Börn lifa enn frekar í augnablikinu og hugur þeirra er svo óreyndur og framkvæmdaglaður að þau birta í sakleysi sínu eitt og annað á netinu sem kemur þeim í koll. Þau átta sig ekki á því hvað slík skrif geta fylgt þeim lengi og enginn veit hvar það endar sem birt er vini á netinu. Ég bið ykkur ræða þetta við börnin og ég hvet ykkur til þess að fylgjast með netnotkun þeirra á þessum miðlum sem öðrum.

Með góðri kveðju og verði ykkur bollur dagsins að góðu!

Sölvi

17. febrúar

Vetrarfrí

Ég minni á vetrarfríið næstkomandi föstudag og mánudag. Skólinn verður lokaður báða dagana.

Heimavinna

Ég er búinn að funda með kennurum yngsta stigs um eitt og annað varðandi námið. Við sjáum að mestar framfarir í lestri eru hjá þeim sem lesa reglulega heima og ég brýni enn og aftur fyrir foreldrum að láta börnin lesa daglega. Einungis með stöðugri æfingu verða þau hraðlæs og þá fylgir lesskilngurinn í kjölfarið. Við höfum jafnframt lestrarprófað alla upp í 7. bekk til að fá það staðfest að börnin hafi náð því marki sem við setjum. Í þeim tilvikum sem svo er ekki munum við hafa samráð við foreldra um aðgerðir til þess að bæta úr skák.

Með góðri kveðju,

Sölvi