Bláklukka, geðheilsa og Sundhöll! - Myndheimur sex teiknara

Sýning 3 1 Sýning 1 1

Hvernig getur ein mynd á augnabliki útskýrt hversu áttavilt manneskja getur orðið í þessu lífi? Hvernig má í fáum línum gefa innsýn í glímuna við geðið og geðheilsuna?

Í veggspjaldi sem Hugleikur Dagsson gerði fyrir Geðhjálp má sjá eina slíka tilraun; teiknaða tilfinningatjáningu. Veggspjaldið er hluti af sýningu sem nú stendur yfir í Landakotsskóla og samanstendur af verkum sex ólíkra teiknara sem eiga það sameiginlegt að fanga augnablik tilvistar okkar og umhverfis og segja sögu í gegnum merkingarbær smáatriði. Teikningarnar eru af ýmsum toga en listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Halldór Baldursson, Linda Ólafsdóttir, Elísabet Rún, Jón Baldur Hlíðberg, Hugleikur Dagsson og Anna Cinthia Leplar, sem einnig er sýningarstjóri ásamt Ingibjörgu Jóhannsdóttur.

Sýningin er sú áttunda í röð skólasýninga sem prýtt hafa skólann á síðustu átta árum. Listaverk á göngum skólans eru liður í því að gera daglegt nám að margþættu og samþættu ferli hugar og handar. Innblástur gestalistaverka verður hvati hugleiðinga og eigin tilrauna undir handleiðslu og í samræðu. Í stað þess að fara á safn og skoða sýningu í eitt skipti, dvelja nemendur með listaverkunum um lengra skeið og fá tækifæri til að skoða og skynja verkin bæði beint og óbeint. Leiðsögn og samræða um sýningarnar er hluti af náminu en líka persónuleg tenging hvers og eins við ólík verk, ólík tjáningarform.

Teikningin er öflugt og margslungið tól. Sýningunni er ætlað að gefa innsýn í ólík frásagnarform miðilsins sem spannar allt frá vísindalegum nákvæmnisteikningum að endursköpun umhverfis skáldsins og prestsins Hallgríms Péturssonar með viðkomu í gríninu um alvöru lífsins.

Á sýningartímanum munu listamennirnir heimsækja skólann og vinna með ákveðnum nemendahópum. Í gegnum samræðu útskýra þeir vinnubrögð sín og aðferðir, segja frá því hvernig þeir búa til persónur, velja þá tækni eða aðferð sem best hentar og pæla í hlutskipti teiknara og listamanna almennt, hvernig og hvort sé hægt að vinna fyrir sér sem teiknari. Frásögn listamannanna sjálfra og samræða þeirra við nemendurna verður því enn eitt tilefnið til hugleiðinga um mismunandi frásagnarhætti okkar sögulegu tíma.

Sjá nánar um listamenninga hér.

In English                                                                                                                                                                                                           Landakotsskóla, haustjafndægrum 2021.
                                                                                                                                                                                                                          Ingibjörg Jóhannsdóttir, skólastjóri.