Stafróf lífs míns, þræðir og skrítin form. Myndlistarsýning í Landakotsskóla

4. september 2020

thumbnail skela gundega syning Landakotsskoli 4 thumbnail skela gundega syning Landakotsskoli 1
thumbnail skela gundega syning Landakotsskoli 2

Á meðan víða hefur þurft að takmarka aðgang almennings að listsýningum þá opnar Landakotsskóli samsýningu framsækinna listamanna sem kallast Stafróf lífs míns, þræðir og skrítin form. Listamennirnir Hrafnhildur Arnardóttir (Shoplifter, http://www.shoplifter.us/), Loji Höskuldsson (https://hverfisgalleri.is/artist/loji-hoskuldsson/), Ýrúrari, (http://www.yrurari.com/) og þríeykið Steinunn Marta Önnudóttir, Anna Hrund Másdóttir og Ragnheiður Káradóttir. Sýningin opnaði 28. ágúst sl.

Litrík og loðin göng ásamt tónverki eftir Ham var mest sótta myndlistarsýning síðasta árs í Hafnarhúsinu. Verkið var einnig framlag Íslands á Feneyjartvíæringnum á síðasta ári. Í Landakotsskóla sýnir Hrafnhildur verk gerð úr tilbúnum þráðum og önnur úr mannshárum – ásamt einu ljósmyndaverki. Með þessum hárum teiknar Hrafnhildur upp mynstur og form sem teygja sig upp um veggi og loft skólans og umbreytir þannig tilfinningu áhorfandans fyrir rýminu.

Þegar Loji var beðinn um að sýna í Landakotsskóla datt honum fljótlega í hug hvað hann vildi gera. Hann vann verkið Stafróf lífs míns sérstaklega fyrir skólann en þar er stafrófið saumað út og hverjum staf fylgir ákveðinn hlutur sem tengist stafnum og um leið ferðalag Loja í gegnum lífið. Myndirnar eru ekki þær sem dæmigerðar eru fyrir slíkar starfrófsmyndir heldur eitthvað sem heyrir til hversdagslífi Loja, eins og Nocco dolla fyrir N, Rjómi fyrir R eða ýla fyrir Ý.

Ýrúrari hefur haldið margar sýningar á peysum sem hún endurvinnur og umbreytir ásamt því að prjóna ýmiss konar skúlptúra sem oft hafa tilvísun í mannslíkamann. Ýr Jóhannesdóttir sem er listamaðurinn að baki Ýrúari vinnur einnig með fjöllistahópnum CGFC en hópurinn mun frumsýna verkið Kartöflur í Borgarleikhúsinu á næstunni. Ýrúrari sýnir tvær peysur í Landakotsskóla sem eru hluti úr seríunni, Þetta mundi ég ekki gera sem hún vann á síðasta ári. Á peysurnar hefur hún bætt við augum, munnum, tungum, tönnum og höndum sem teygja sig út í rýmið. Ýrúrari gerir þar með hversdagslegustu flíkur að algjörum ævintýrapersónum. Verkunum fylgja myndbrot og ljósmyndir þar sem umbreytt föt Ýrar eru í aðalhlutverki og í margs konar einkennilegu samhengi.

Falin innanum moldvörpu, fallega áletruð egg og ösku úr Heklu frá 1914 er að finna afrakstur úr efnistilraunastofu þríeykisins Steinunnar, Önnu Hrundar og Ragnheiðar. Verkin urðu til þegar þær stöllur rannsökuðu eiginleika ýmiss konar efna sem vöktu áhuga þeirra eins og gifs, teppabúta, svampa og glitþráða. Verk þeirra stallsystra flæða saman við náttúrugripina svo oft er erfitt að greina á milli þess sem var og þess sem þær hafa bætt við.

Í vetur verður listamönnunum boðið að vinna með ákveðnum nemendahópum í skólanum. Sýningin verður opin út skólárið, í fyrstu einungis börnum sem eru nemendur skólans og starfsfólki en væntanlega mun almenningur getað skoðað hana eftir að hættustigi hefur verið aflýst í vetur. Frekari upplýsingar um sýninguna veitir Ingibjörg Jóhannsdóttir skólastjóri (s. 860 3795)

Sýningarstjórar: Ingibjörg Jóhannsdóttir, Gundega Skela. Þrjár ljósmyndir fylgja tilkynningunni af verki Loja, Staróf lífs míns, af tveimur peysum Ýrúrari og úr innsetningu Steinnunar, Önnu og Ragnheiðar. Myndirnar tók Gundtega Skela.

English here