Af öflugu skákstarfi í skólanum

27. maí 2019
Verdlaunahafar
Verðlaunahafar á skákmóti Landakotsskóla. Smellið á myndina til að skoða fleiri myndir. 

Mikið hefur verið um að vera í skákstarfi Landakotsskóla í vetur. Fischer setrið á Selfossi var heimsótt í haust, skólalið Landakotsskóla náðu frábærum árangri á grunnskólamótum vetrarins, og þá bauð skólinn heim til Íslandsmóts grunnskólasveita í mars.
Skákstarfi vetrarins lauk með skólamóti á árvissum skákdegi Landakotsskóla þann 10. maí síðastliðinn. Mótið var nú haldið í þriðja sinn, og opið öllum nemendum skólans í 1.-10. bekk. Fleiri keppendur þátt en nokkru sinni áður eða áttatíu og tveir nemendur það er um þriðjungur nemenda við skólann. Þátttakendur hefðu verið enn fleiri ef ekki hefði þurft að takmarka þátttöku vegna plássleysis í matsalnum!
Tefldar voru 7 umferðir og tímamörk voru 10 mínútur. Nemendurnir tefldu 4 umferðir fyrir hádegi, og þegar hlé var gert á móti til að snæða hádegisverð voru enn 5 keppendur með fullt hús. Við upphaf 6. umferðar voru þó einungis 2 keppendur ósigraðir, og mættust þau á fyrsta borði, Ian úr 8. bekk með svart, og Iðunn úr 6. bekk með hvítt. Tók þá við afar spennandi skák sem Iðunn vann að lokum. Iðunn vann einnig síðustu skák dagsins og hampaði titlinum skákmeistari Landakotsskóla 2019 með fullt hús stiga eftir 7 umferðir og langan dag. Til hamingju, Iðunn!

Iðunn hlaut bikar til eignar, þá voru veittir verðlaunapeningar fyrir annað og þriðja sæti, sem og smærri peningar fyrir efstu keppendur í hverri bekkjardeild. Þá voru einnig veitt sérstök verðlaun fyrir góða taflmennsku og framúrskarandi þátttöku í skákstarfi skólans.

Helstu verðlaun hlutu:
Skákmeistari Landakotsskóla: Iðunn Helgadóttir
2.sæti: Krummi Margeirsson
3.sæti: Ian Valdimarsson
Sérverðlaun: Úlfur Þórólfsson

Ég vil sérstaklega þakka Hrafnkatli Einarssyni, Skáksambandi Íslands, sem og öllum öðrum er tóku höndum saman til að gera okkur kleift að halda þetta skemmtilega mót. Það var sérstaklega gleðilegt að sjá hve jákvæð samskiptin voru milli yngri og eldri nemenda skólans. Mótið hefur fest sig í sessi í skólastarfinu og við bindum vonir við að það verði haldið á hverju ári um ókomna tíð.

Micah Quinn
Skákkennari og þjálfari skólaliða Landakotsskóla.