Hljóðfæranám

Hljóðfæranám við Landakotsskóla skólaárið 2023-2024

Nemendum í 2. – 4 . bekk stendur til boða að skrá sig í hljóðfæratíma í skólanum, annars vegar í hóptíma (á frístundartíma) og hins vegar í einstaklingstíma (á skólatíma). 

Hóptímar 

Hóptímar eru skipulagðir á frístundartíma í þriggja til fjögurra barna hópum. Í hljóðfærahóptímunum velja börnin sér hljóðfæri (ukulele, gítar, píanó, fiðlu eða blokkflautu) en einnig er hægt að velja tónsmiðju þar sem ekki er miðað við ákveðið hljóðfæri. 

Í hljóðfærahóptímunum kynnast nemendur hljóðfærinu sem þeir völdu sér og læra einföld lög sem þau geta spilað saman í hóp. Börnin kynnast líka aðferðum í spuna og prófa að semja sína eigin tónlist. Leitast er við að tengja námið við annað skólastarf og miðað er við að börnin spili reglulega fyrir bekkjarfélaga og á viðburðum á vegum skólans. 

Kennarar eru Annamaria Lopa, Dagný Arnalds og Sólrún Gunnarsdóttir. 

Tónsmiðjan er vettvangur fyrir frjálsa tónlistarsköpun. Ekki er kennt á ákveðin hljóðfæri, en nemendur fá að kynnast ýmsum hljóðfærum sem til eru í skólanum. Þar á meðal eru slagverkshljóðfæri, ukulele og hljómborð. Í tónsmiðjunni læra nemendur fyrst og fremst að skapa tónlist í gegnum spuna, tón- og textasmíðar. Nemendur efla tilfinningu fyrir hrynjanda, búa til lúppur og spinna út frá þeim og semja lög. Kennsla fer fram verklega, í spuna, tónlistarflutningi og æfingum, í spjalli og samræðum og í gegnum leik. 

Kennarar eru Sólrún Gunnarsdóttir og Dagný Arnalds 

Markmiðið með hópatímum, bæði hljóðfærahóptímum og tónsmiðju er að sem flestir nemendur skólans kynnist tónlistarnámi og að börnin læri saman með áhuga og gleði að leiðarljósi. 

Hópatímar eru 30 mínútur á viku á frístundartíma. 

Verð fyrir hóptíma: 3.750.- kr. á mánuði. 

Einstaklingstímar á hljóðfæri 

Í einstaklingstímunum fá nemendur tækifæri til að dýpka námið og vinna á einstaklingsmiðaðri hátt. Nemendum standa til boða einstaklingstímar á skólatíma, hvort sem þau sækja hóptíma eða ekki. Í einstaklingstímum gefst nemanda kostur á einstaklingsmiðuðu námi sem tekur mið af þörfum þeirra og áhuga. Hverjum nemanda er mætt þar sem hann er staddur og námið sérsniðið. Lögð er áhersla á að spila eftir eyranu og að nemendur hafi ánægju og gleði af hljóðfæranáminu. 

Einstaklingstímar eru 20 mínútur á viku á skólatíma. 

Verð: 15.750.- kr. á mánuði. 

Tónfundir í frístund 

Nemendur fá tækifæri til þess að æfa sig í því að koma fram og spila fyrir félaga sína á frístundartíma. Tímunum er ætlað að vera hvetjandi vettvangur fyrir börnin þar sem þau fá að upplifa tónlistarnámið sem samfélag. Reiknað er með að pláss sé fyrir öll börn í frístund í hópatímum á hljóðfæri og í tónsmiðju. Takmarkað fjöldi pláss er hins vegar í boði í hverjum valkosti og það sama gildir um fjölda einkatíma á skólatíma. Gert er ráð fyrir að hljóðfæranemendur geti æft sig heima og því er mikilvægt að þeir hafi aðgang að hljóðfæri heima við. Nemendur geta fengið fiðlur leigðar í Landakotsskóla. 

Kennarar: 

Hljóðfærakennarar eru Annamaria Lopa (gítar og blokkflauta), Dagný Arnalds (forskóli, píanó og tónsmiðja), Silja Björk Baldursdóttir (einstaklingstímar á píanó) og Sólrún Gunnarsdóttir (forskóli, tónsmiðja og fiðla). 

Annamaria Lopa hefur lokið mastersnámi í gítarleik frá Accademia Musicale Chigiana í Sienna. Annamaria hefur einnig lokið MA-gráðu í tónlistar- og gítarkennslu og hefur kennt á gítar og blokkflautu frá 2003, bæði hér á Íslandi og á Ítalíu. Hún hefur unnið að námsefnisgerð og gefið út námsefni fyrir fyrstu stig hljóðfæranámsins. 
 
Dagný Arnalds lauk píanókennaranámi frá Tónlistarskóla Reykjavíkur árið 2002 og í kjölfarið diplómaprófi í skapandi tónlistarkennslu með áherslu á spuna árið 2004 í Frakklandi. Dagný starfaði í tvö ár við Iniciativas Musicales tónlistarskólann í Granada á Spáni og var lengi kennari og aðstoðarskólastjóri við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Dagný hefur einnig að baki nám í söng og kórstjórn og hefur starfað sem kórstjóri. Hún lauk í vor MA námi í Listkennslufræðum við Listaháskóla Íslands. 

Sólrún Gunnarsdóttir lauk mastersnámi í fiðluleik frá Trinity College of Music. Hún hefur lokið réttindanámi í Suzuki fiðlukennslu. Sólrún hefur mikla reynslu af kennslu ungra barna og hefur verið virk í íslensku tónlistarlífi þar sem hún spilar fjölbreytta tónistarstíla, allt frá klassík til þjóðlagatónlistar, djass, rokks og hip hops. 

Silja Björk Baldursdóttir lauk burtfararprófi í píanóleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2000 sem og píanókennaraprófi. Einnig hefur hún lokið mastersnámi í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands og þverfaglegri diplómagráðu frá sama skóla. Silja hefur starfað við rannsóknir en hefur einbeitt sér að tónlistarkennslu undanfarin ár. Hún leggur áherslu á sköpun, lestur hljóma og að spila eftir eyranu og nýtir tæknimiðla óspart við kennsluna. Hún hefur að leiðarljósi að nemendur verði sjálfbjarga þátttakendur í tónlist og geti spilað lög líðandi stundar í bland við önnur lög sem staðist hafa tímans tönn. Þá kennir Silja nemendum sínum jafnframt að sýna sjálfum sér samkennd og mildi í eigin garð.
Leit