Fréttasafn
Öflugur hópur nemenda í 9. og 10. bekk í Landakotsskóla á leið í Menntaskólann við Hamrahlíð til að taka próf í framhaldsskólastærðfræði miðvikudaginn 14. maí.
Nemendum 9. og 10. bekkjar Landakotsskóla býðst að taka fyrstu tvo stærðfræðiáfangana á náttúrufræðibraut Menntaskólans við Hamrahlíð, STÆR2AA05 og STÆR2BB05. Um er að ræða áfanga sem í MH eru teknir á einni önn hvor en þeim er dreift yfir eitt ár fyrir grunnskólanema.
Í 8. bekk hefur nemendum skólans boðist að taka stærðfræðival sem gefur þeim þann grunn sem þarf til að fara í framhaldsskólastærðfræðina fyrr en víðast annars staðar. Það val býðst jafnframt nemendum 9. og 10. bekkjar sem vilja styrkja grunn sinn í stærðfræði unglingastigsins.
Alls
tóku 45 nemendur úr þremur grunnskólum próf í MH síðastliðinn miðvikudag, en
þar af voru 15 frá Landakotsskóla. Af þeim tóku 6 sitt annað lokapróf í
menntaskólaáfanga í stærðfræði, og hafa þar með kost á að vera búnir með fyrsta
árið í stærðfræði við menntaskólann. Alls tóku 7 nemendur próf í þessum síðara
áfanga í þetta sinn, restin tók fyrri áfangann sem einungis er boðið upp á
kennslu í við hina grunnskólana. Nemendur voru að vonum spenntir, og pínu
stressaðir, að að stíga inn í menntaskóla sumir hverjir í fyrsta sinn og taka
próf og uppskera eftir að hafa lagt á sig mikla vinnu í vetur.
Með bestu kveðju,
Höskuldur M, stærðfræðikennari.