Fréttasafn

Gleðilega hátíð

Gleðilega hátíð

19.12.2023

Það hefur verið hátíðarbragur á öllu í skólanum þessa viku og eftirvænting skinið úr hverju andliti. 

Jólakvöldverður

Unglingadeildin var með árlega jólaveislu í gærkvöldi og mættu allir í sínu fínasta pússi og stóðu sig með sóma, borðhald gekk eins og í sögu og að lokum var dansað í kringum jólatréð. Í bingó var það áttundi bekkur sem fékk alla þrjá vinningana og geri aðrir betur. 10th grade alþjóðadeildar vann í samkeppni um best skreyttu hurðina en kosið var um það í leynilegri kosningu. Það voru svo saddir og sælir unglingar sem gengu út í jólasnjókomu og jólafrí.

Unglingarnir dansa og syngja við jólatréð.

Askasleikir mætti á jólaskemmtun

Nemendur í 5 ára og upp í 7. bekk dönsuðu í kringum jólatréð í dag og því ómuðu jólasöngvar og gleðihlátur frá matsal skólans í allan morgun. Askasleikir mætti á ballið og hann var sko alvöru jólasveinn. Það mátti sjá á hegðun hans en hann stríddi bæði nemendum og starfsfólki auk þess að hafa með sér forlátan ask sem í voru allt annað en kræsilegar veitingar. Það var erfitt að sjá hvort Askasleikir eða börnin voru ánægðari með að syngja jólalögin og dansa með.

Börnin hlusta á ævintýri Askasleikis.

Hátíðarkveðjur

Skólinn verður í jólafríi frá 20. Desember til og með 2. Janúar. Börnin mæta svo samkvæmt stundatöflu á nýju ári, miðvikudaginn 3. janúar. 

Starfsfólk skólans vill óska öllum nemendum og aðstandendum gleðilegrar hátíðar með ósk um farsæld á nýju ári.

Frá helgileik í Krists kirkju við Túngötu.

Engin ummæli enn
Leit