Fjölbreytt verkefni í ensku í 5. bekk

19. mars 2019

thumbnail penfriend picture

Í enskukennslu í 5. bekk hafa nemendur fengist við fjölbreytt verkefni. Til dæmis hafa þeir skrifað bréf til nemenda í skóla í Englandi sem heitir St Mary's High School í Chesterfield. Það ríkti mikil gleði og spenningur þegar bréf bárust til baka frá nýju pennavinunum ásamt smá gjöf sem var barmmerki skólans. Fleiri bréf eru nú á leiðinni á milli nemenda skólanna.
Einnig hefur verið unnið með orðaforða um kvikmyndir og kvikmyndagerð, nemendurnir hafa sameinað ensku og tölvufærni sína til að gera nokkur skemmtileg sýnishorn fyrir kvikmyndir sem þeir vilja sjá. Hér er hægt að skoða tvö sýnishorn Chadman and Co.MOV og Sophie and Co film

Öskudagur og öskupokar

4. mars 2019

öskudagspokagerð1

Öskudagurinn er í vændum og hafa nemendur í 2. bekk af því tilefni búið til öskupoka. Öskupokarnir eru afar skrautlegir eins og sést á myndinni, tilbúnir til síns brúks.

En hvað er öskupoki?
Íslenskir siðir sem tengjast öskudegi eru annað hvort komnir úr kaþólskri trú eða frá hinum Norðurlöndunum. Öskupokasiðurinn er hins vegar alíslenskur og næstum því 400 ára gamall.

Því miður virðist þessi gamli siður á undanhaldi en eins og nemendur í 2. bekk í Landakotsskóla geta allir búið til nokkra öskupoka og síðan reynt að læðast aftan að börnum og fullorðnum á öskudaginn til að hengja pokana aftan á þá eins og Íslendingar hafa gert í fjögur hundruð ár!!

Svona farið þið að:
1) Klippið niður litla ferhyrnda efnisbúta, helst í nokkrum litum.
2) Brjótið þá saman og saumið saman botninn og hliðina.
3) Setjið eitthvað óvænt í pokann eins og til dæmis brandara, málshátt eða jafnvel ástarbréf.
4) Bindið þráð eða band utan um pokaopið og festið bréfaklemmu, eða nælu á lausa enda bandsins.

Öskupokana má hengja á hvern sem er en í gamla daga reyndu stelpur oft að koma öskupokum, með ösku í, á strákana, en strákar reyndu að koma pokum með smásteinum í á stelpurnar.

About Ash Wednesday in Iceland in english: https://www.icelandreview.com/news/ash-wednesday-today/
Heimild: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/782290/ og https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3201 

Alþjóðadagur móðurmálsins

Í dag hélt Landakotsskóli upp á Alþjóðadag móðurmálsins. Við gerðum það með því að búa til talblöðrur. Í hverri talblöðru var skrifað á einu tungumáli „Við tölum íslensku“, "We speak English", "On parle franҫais", "Wir sprechen Deutsch" og svo framvegis..., en nemendur og starfsfólk skólans tala samtals yfir 30 tungumál. Nemendur sem tala viðkomandi tungumál skrifuðu nöfn sín í talblöðruna. Þannig eru tungumál nemenda sýnileg því talblöðrurnar hanga á vegg eða hurðum viðkomandi bekkja. Hægt er að sjá myndir af verkefninu hér.

Landakotsskóli er stoltur af þeim fjársjóði sem nemendur eiga í þeim tungumálum sem þeir tala. Það endurspeglar áherslur skólans sem felast ekki síst í öflugri tungumálakennslu.

21. febrúar