Samsöngur í desember

2. desember

Á hverjum föstudegi hittast 5 ára-3.bekkur í salnum og syngja saman.

Nú í desember bætast 4., 5. og 6. bekkur við og þá kveikja nemendur úr 5.bekk líka á kertum aðventukransins og segja frá hverju kerti fyrir sig.

Í morgun spiluðu nemendur í 5 ára bekk jólalög á ukulele og sungu með.

Aðstandendur eru alltaf velkomnir að mæta og syngja með og eins og sjá má á myndunum eru þeir duglegir að láta sjá sig :) 

Norrænir tungumáladagar

25. nóvember

Norrænir tungumáladagar standa nú yfir í unglingadeild skólans og standa til 25. nóvember. Verkefnið er í samvinnu við Videncenter for Integration (www.vifin.dk).  Í gegnum verkefnið kynnast nemendur ungu fólk á Norðurlöndum, skólalífi, menningu og náttúru. Nemendur nota samfélagsmiðla til samskipta milli landanna, þau búa til myndbönd um skólana sína og umhverfi, búa til spurningakeppnir og svara hvort hjá öðru – svo fátt eitt sé nefnt. Allur dagurinn er undirlagður fyrir þessa vinnu og unnið er þvert á aldur. Í Landakotsskóla leiða þær Helga Birna og Nína verkefnið. Þetta er afar flott vinna sem eykur áhuga nemenda á að læra norræn tungumál og þjálfar kennara og nemendur í notkun allra þeirra nýju miðla og forrita sem mögulegt er að vinna með og gæða skólastarfið lífi.

Fleiri myndir frá verkefninu má nálgast hér

Íslenskuverðlaun í Hörpu

21.nóvember 2016

 

Íslenskuverðlaun Jónasar Hallgrímssonar voru afhent við hátíðlega athöfn í Hörpu þriðjudaginn 16. nóvermber, á degi íslenskrar tungu. Umsjónarkennarar og íslenskukennari í unglingadeild útnefna nemendur.

Að þessu sinni fengu Ófeigur Ovadia Simha Hlöðversson í 3. bekk, Unnur Maren Þiðriksdóttir í 7. Bekk og Íris Björk Ágústsdóttir í 10. bekk viðurkenningu. Ófeigur fyrir að leggja sig ávallt fram og gerir sitt besta, að vera vinnusamur, lesa mikið og vera sérlega duglegur að skrifa sögur og segja frá skemmtilegum atburðum. Unnur fyrir að vera mjög duglegur og samviskusamur nemandi sem hefur gott auga fyrir íslenskri tungu og vandar alltaf til verka. Hún er mjög skapandi í sínum skrifum og hefur unnið áhugaverða texta sem spennandi er að lesa. Og Íris fyrir að hafa næman skilning á íslenskri tungu og bókmenntum og hefur náð góðum árangri í öllum greinum íslenskunnar.